Monday, December 18, 2006

Kveðja

Ég bjóst varla við því eftir aðgerðarleysi síðustu vikna hér á blogginu að Life myndi útnefna mig sem mann ársins. En stundum er betra að þegja ef maður hefur ekkert að segja. Þegar ég stofnaði þessa bloggsíðu ákvað ég að skrifa ekkert persónulegt um sjálfan mig eða mína nánustu og hef staðið við þá ákvörðun.

Í staðinn hef ég skrifað um menningu, pólitík og málefni líðandi stundar. Svo kemur sú stund að maður nennir þessu ekki lengur. Mér sýnist stefna í stofnanavæðingu bloggsins. Framsóknarmenn fá borgað fyrir að halda úti "sjálfstæðum" fréttasíðum, mogginn og vísir bítast um bloggara. Þetta er kreisí heimur.

Síðan mun auðvitað standa óhreyfð. Hún er svosem ágætis minnisvarði um síðasta ár. Úr blaðamennskunni í hellulagnir, þaðan á NFS og síðan í Listaháskóla Íslands. Sannkölluð rússíbanareið. Svo er mér minnisstæt þegar ég hætti að reykja og bloggaði um það. Lesendum til fróðleiks heldur bindindið. Sígaretturnar eignuðust harðsnúinn andstæðing. Svo hef ég gagnrýnt bíómyndir, skrifað lof um Poseidon en kunni ekki að meta Borat.

Svona er lífið. Ég þakka öllum sem lesið hafa síðuna (þér sérstaklega Karen). Gleðileg jól.

Símon Birgisson

Monday, November 20, 2006

Álverið

Fjölmennur fundur um álverið í Straumsvík var haldinn í Hafnarfirði í gær. Ungir Jafnaðarmenn stóðu að fundinum. Pabbi fór fyrir mína hönd. Sagði niðurstöðuna einfalda.

Peningar.

Hann sagði Hrannar Pétursson hafa lofað bæjarbúum átta hundruð milljónum í stað þeirra sjötíu milljóna sem álverið færir bænum í dag. Ný skattalög gerðu það að verkum.

Með átta hundruð milljónum væri hægt að byggja leikskóla og auka þjónustu. Lúðvík kom með sömu gömlu tugguna. Bæjarbúar fá að kjósa um stækkunina.

Samt kom fram á fundinum að það verður ekki beint kosið um stækkunina. Atkvæðaseðillinn verður ekki: Viltu stækkun eða ekki. Í staðinn verður kosið um ákveðnar skipulagsbreytingar.

Og svo er óljóst hve stór hluti bæjarbúa þarf að hafna þessum skipulagsbreytingum til að þær taki gildi. Sextíu-fjörutíu eða jafnvel meira? Svör óskast.

Sunday, November 19, 2006

Flúinn

Valdimar Leó er orðinn óháður og ætlar að fylgja sannfæringu sinni. Hann var samt ekki sannfærandi í Silfri Egils. Talaði frekar eins og lobbyisti fyrir íþróttafélögin en pólitíkus.

Stjórnmálamenn þurfa að hafa framtíðarsýn. Það er ekki nóg að vilja bara gera lögbrjóta úr þeim sem leggja í fötluð stæði. Ekki að það sé slæmt mál. Það vinnur bara ekki heilt prófkjör.

Mosfellingurinn Valdimar mun trúlega halda áfram að vera ósýnilegur þingmaður hvort sem hann er óháður eða í stórum flokki. Ein af niðurstöðum prófkjörana var að ósýnilegum þingmönnum var refsað.

Önnur niðurstaða var sú að Samfylkingin hræðist endurnýjun. Þingmenn ríghalda í áframhaldandi minnihlutasetu. Þeir tíma ekki að henda margra ára setu í minnihlutanum burt ef Samfylkingin kæmist í meirihluta.

Valdimar Leó þorði að taka sína ákvörðun því hann er þegar orðinn atvinnulaus.

Friday, November 17, 2006

Örn í lífsháska

Heyrði skelfilega frétt í hádeginu á Rúv. Fuglaflensa hefur hreiðrað um sig í Húsdýragarðinum og búist er við að farga þurfi um 60 fuglum. Sem betur fer mun flensan ekki vera hættuleg mönnum.

Þegar ég heyrði þessa frétt var mér hugsað til annarrar fréttar sem við fjölluðum ítarlega um á NFS í sumar. Ung stúlka, Sigurbjörg S. Pétursdóttir á Grundarfirði bjargaði erni úr lífsháska.

Örninn var grútarblautur og vantaði á hann stélfjaðrirnar. Því gat hann ekki hafið sig til flugs og var að drukkna þegar Sigurbjörg kom honum til hjálpar. Seinna gaf unga stúlkan erninum nafnið Sigurörn.

Miðað við hádegisfréttirnar á Rúv virðist komið að leiðarlokum hjá þessari mikilfenglegu skepnu. Sjálfur fór ég einu sinni í heimsókn til arnarins og var fullur lotningar.

Enda nánast alnafnar; nafn mitt - Símon Örn.

Tuesday, November 14, 2006

Upplestur og Ísafold

Sat á kaffihúsi og las Ísafold - tímarit Reynis Traustasonar. Komst að því að um frábært blað er að ræða. Fjölbreyttar greinar um allt frá harmi hins daglega lífs til stríðsástands í stjórnmálum að ógleymdum játningum fegurðardrottningar.

Ein áhugaverðasta greinin í tímaritinu er um Íslending, Hauk, sem býr í smábænum Kuummiut á austur-strönd Grænlands. Þessi bær er mér sérstaklega hugleikinn en þangað hef ég tvisvar komið í skáklandnámi Hróksins.

Haukur segir frá erfiðum árum ævi sinnar, sonarmissi, láti eiginkonu sinnar og lífi einstæðs föðurs innan um borgarísjakana í landinu græna. Ekki spillir fyrir að sjálfur ritstjóri Ísafoldar heldur um pennan.

Við lestur viðtalsins rann upp fyrir mér hve heitt ég sakna Grænlands. Nú eru félagar mínir í Hróknum í vikuferð um þetta harðbýla svæði. Skákin er örugglega eitt það besta sem komið hefur fyrir landið síðustu ár.

Blogg leiðangursins er http://www.godurgranni.blog.is.

Sjálfur hef ég skrifað smásögu sem fjallar um lífsbaráttu Íslendings í smábænum Kuummiut. Brot úr sögunni las ég upp á Selfossi í síðustu viku á upplestri á nýopnuðu kaffihúsi Bjarna Harðarsonar.

Í lok lestursins kölluðu nokkrar eldri konur: "En hvernig endar sagan?" Betri gagnrýni er vart hægt að fá.

Monday, November 13, 2006

Borat

Ég sá bíómyndina um Borat í gær. Fór á tíu sýningu í Laugarásbíó. Það var nánast fullur salur. Enda Íslendingar að verða bíósjúk þjóð. Fullt hús á Mýrina og Borat. Það er alminnilegt.

Varð reyndar fyrir nokkrum vonbrigðum með myndina. Fannst þetta svolítið mikill einkahúmor. Eitthvað sem nördarnir á Utupe elska en almenningur skilur kannski lítið í. Held þetta sé meira svona DVD mynd en bíó.

Myndir í bíó þurfa nefnilega að líta alminnilega út. Ég sá Poseidon á DVD um daginn og dauðsá eftir því að hafa ekki farið á hana í bíó. Þar var alvöru sviðsmynd og tæknibrellur, spenna og hasar.

Svo sá ég The Departed í síðustu viku. Hún er frábær. Nýtur sín vel í stóra salnum í Háskólabíó.

En því miður get ég ekki mælt með Borat. Hún er bæði illa gerð, illa tekin og ákveðinn amatör bragur yfir klippingunni. Svo er þetta eins og með annan einkahúmor. Maður hlær kannski fyrsta hálftíman en svo hættir þetta að vera fyndið.

Sunday, November 12, 2006

Ekki nógu gott

Úrslit prófkjörsins í Reykjavík eru ekki ánægjuleg fyrir Samfylkinguna. Þriðjungur flokksmanna lýsa yfir óánægju með formann flokksins, Ingibjörgu Sólrúnu, og endurnýjun á listanum er nánast engin.

Eini nýji leikmaðurinn í "þingmannaliðinu" er reynsluboltinn úr borginni Steinunn Valdís, sem fékk á sínum tíma viðurnefnið - alþýðlegi borgarstjórinn.

Ég fór á kosningavökuna hjá Samfylkingunni í gær. Hún var haldinn á nýjum skemmtistað í eigu Kormáks og Skjaldar. Stemningin var í takt við úrkomu prófkjörsins. Frekar döpur.

Ótvíræður sigurvegari var þó Össur Skarphéðinsson. Fékk frábæra kosningu og mætti síðastur þingmanna á vökuna - Eins og sönnum sigurvegara sæmir.

Ég veit ekki með Samfylkinguna. Oft er besta viðmiðið á árangur manna hvernig þeim hefur gengið áður. Sá sem einu sinni sefur sig út úr vinnu er líklegur til að gera það aftur.

Af hverju ætti því sama liði að takast að fella endurnýjaðan Sjálfstæðisflokks undir stjórn Geirs H. Haarde?

Ég segi eins og ágætur bloggari, þegar stórt er spurt...